Prufa

Er öruggt að fara í liðskiptiaðgerð erlendis?

Það má líka spyrja – Er öruggt að fara í liðskiptiaðgerð á Íslandi?  Engar skurðaðgerðir eru fullkomlega öruggar, en áhættan væntanlega álíka mikil hér heima og erlendis.

Það má líka spyrja – Er ráðlegt að bíða lengi eftir liðskiptiaðgerð á Íslandi ef hægt er að komast fljótlega að í nágrannalandi?

CPH sjúkrahúsið starfar samkvæmt lögum í Danmörku. Um er að ræða vandað sjúkrahús þar sem sérfræðiþekking er til staðar með reynslumiklu lækningateymi,  nýjum tæknibúnaði, nýjustu aðferðum,  hreinlæti og sýkingavörnum sem stenst samanburð við það sem best gerist hér heima.

Á ég rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands?

Þeir sem þurfa á liðskiptiaðgerð að halda og hafa þurft að bíða í 3 mánuði eða lengur, eða að útlit er fyrir að þurfi að bíða svo lengi eftir aðgerð, sem því miður á almennt við hér á landi, eiga rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við að sækja þá heilbrigðisþjónustu erlendis. Greiðsluþátttaka SÍ nær yfirleitt til alls kostnaðar sem tengist aðgerðinni og ferðinni.

Ísland er aðili að Evrópsku regluverki varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæti sem tryggir fólki viss réttindi milli landa.

Þeir sem ekki kæra sig um að sækja um greiðsluþátttöku SÍ geta farið í aðgerð á eigin kostnað, að því gefnu að þeir uppfylli þær viðmiðandi sem CPH setur varðandi þá sem þau taka við í aðgerð.

Hvernig kemst ég á biðlista eftir liðskiptiaðgerð?

Nafn þitt þarf ekki að standa á biðlista eftir aðgerð í 3 mánuði. Það nægir að læknir sem þekkir þitt vandamál meti það svo að þú munir þurfa að bíða eftir aðgerð lengur en í 3 mánuði samtals. Þá getur hann sótt um greiðsluþátttöku til SÍ án tafar.

Hvernig fer ég að því að fá greiðsluþátttöku til að sækja liðskiptiaðgerð erlendis?

Maður getur ekki sótt beint um sjálfur, það þarf læknir að sækja um fyrir þig.  Gott er að bæklunarlæknir sem þekkir þín stoðkerfisvandamál sæki um fyrir þig. Það getur hins vegar tekið marga mánuði að komast að hjá bæklunarlækni.

SÍ má ekki gera kröfu um að bæklunarlæknir sæki. Þau taka við umsóknum frá heimilislæknum, en kunna að óska eftir meiri rökstuðningi ef umsókn berst frá heimilislækni.  Það er því matsatriði til hvaða læknis rétt er að snúa sér.  Það skaðar ekki að reyna það sem manni finnst líklegt að gangi hraðast fyrir sig.  Ef það gengur erfiðlega má snúa sér að öðrum lækni.

Hvað taka SÍ sér langan tíma til að svara?

Það er fundað um umsóknir á 2ja vikna fresti hjá SÍ. Stundum óska SÍ eftir viðbótar gögnum og þá tefst afgreiðsla, en almennt má vænta niðurstöðu eftir 2-3 vikur frá því umsókn er send.

Hvað er löng bið eftir því að komast í aðgerð erlendis?

Það er aðeins nokkurra vikna biðin eftir aðgerð hjá CPH, stundum bara 2 vikur stundum rúmlega einn mánuður.

Það er hægt að panta í aðgerð á sama tíma og sótt er um greiðsluþátttöku SÍ þannig að heildar biðtíminn frá því umsókn er send til SÍ og þar til komið er út í aðgerð þarf ekki að vera nema um 3 vikur eða svo.

Hvað kostar liðskiptiaðgerð?

Sjá allt um verðin hér.

Hvað tekur ferðin marga daga?

Lágmarksdvöl erlendis er 5 nætur.   Fólk er yfirleitt 1 nótt á hóteli fyrir aðgerðina, 2 nætur á sjúkrahúsinu og svo aftur 2 nætur á hótelinu á eftir. Auðvitað getur fólk verið lengur ef það vill. Fylgdarfólk sefur allar næturnar á hótelinu.

Hvar finn ég upplýsingar um CPH sjúkrahúsið?

CPH Privathospital
Heimilisfang: Rådhustorvet 4, 3520 Farum, Denmark.
Sími: +45 7021 8000,
Heimasíða: cph-privathospital.dk,
Netfang: info@cph-privathospital.dk

Eru einhver skilyrði sem fólk þarf að uppfylla til að komast í liðskiptiaðgerð hjá CPH?

Já það eru nokkur skilyrði varðandi heilsufar og þess hátta auk almennra skilyrða varðandi aldur, sjálfræði og þess háttar.

CPH þarf eftirfarandi upplýsingar um heilsu umsækjenda.  Sjúkraskýrslu, röntgenmyndir af viðkomandi svæði, ekg (hjartalínurito) og upplýsingar um BMI . Ef BMI er yfir 35 þarf læknir CPH að samþykkja sjúkling og CPH tekur ekki við sjúklingum með BMI hærra en 40.  CPH tekur ekki sjúklinga sem eru í hærri heilsuflokki en ASA 2.

Til að komast að því hvort þú uppfyllir skilyrðin má snúa sér til heilsugæslu/heimilislæknis og óska greiningar.