Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands á sjúkratryggður einstaklingur rétt á sækja sér heilbrigðisþjónustu þar sem hann kýs sjálfur innan EES svæðisins, með ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögum. Endurgreiða þá Sjúkratryggingar Íslands kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taka til hér á landi. Engin greiðsluþátttaka er veitt í ferðakostnaði eða uppihaldi.

Greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunar erlendis er sú sama og Sjúkratryggingar veita hér á landi, samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands og aldrei hærra en nemur raunkostnaði. Ef verðlagningin úti er hærri en gjaldskrá okkar þá myndast umframkostnaður sem fellur á einstaklinginn.

Sjá einnig hér um fjárhagsaðstoð vegna frjósemivandamála, neðarlega á síðunni.

Sérstakar reglur gilda um læknismeðferðir erlendis þar sem leggjast þarf inn á sjúkrahús og teljast fyrir fram ákveðnar. Sækja þarf fyrir fram um greiðsluþátttöku til  Sjúkratrygginga, sjá hér

Flestar frjósemimeðferðir eru hins vegar gerðar án innlangnar á sjúkrahús yfir nótt. Gagnvart þeim nægir yfirleitt að framvísa greiddum reikningum hjá  Sjúkratryggingum og óska greiðsluþátttöku.

Hægt er að kynna sér reglur Sjúkratrygginga Íslands nánar á island.is  og hjá Sjúkratryggingum.

Í sumum tilvikum fæst skattaafsláttur vegna heilbrigðisútgjalda sem þessara.  Þá þarf að gefa upp kostnaðinn í skattaskýrslum og hafa tiltæk gögn um kostnaðinn til að geta fært sönnur á hann.

Sum stéttarfélög taka þátt í heilbrigðiskostnaði sem þessum.  Hver og einn þarf að sækja um greiðsluþátttöku til síns stéttarfélags.

HEI leiðbeinir um ferlið, pantar í aðgerð og aðra tengda þjónustu og aðstoðar eftir föngum.  Ekki þarf að greiða HEI fyrir þá þjónustu.