Ég hafði lengi verið verkjuð í hægra fæti og verið á biðlista hjá Landpítalanum í á annað ár án þess að fá viðunandi þjónustu.  Fyrst fékk ég viðtal hjá þeim til að fá staðfestingu á því hvort ég ætti rétt á að fara á biðlista vegna hnéaðgerðar, þó svo að heimilislæknirinn minn væri búinn að staðfesta það.  Þegar það var svo staðfest, var ég sett á annan biðlista fyrir aðgerðina sjálfa.  Ég var orðin mjög verkjuð þegar hér var komið og valdi þá þann kost, sem mér var bent á, að fara til Svíþjóðar eða Danmerkur í aðgerðina. Heimilislæknirinn minn sendi svo umsókn fyrir mig til CPH Privathospital í Farum í Danmörku um aðgerð.  Hafði ég síðan samskipti við sjúkrahúsið símleiðis og í gegnum tölvupóst og gekk það fljótt og vel fyrir sig.  Ég fór svo í flug til Kaupmannahafnar 4. nóvember 2018 og kom konan mín með mér.  Átti ég viðtalstíma hjá þeim snemma næsta morgun og 2 tímum síðar var ég komin í aðgerðina, sem gekk vel. Allt var til fyrirmyndar og læknirinn sem gerði aðgerðina og allt starfsfólkið var mjög fagmannlegt og öruggt og umfram allt vingjarnlegt og hjálpsamt.  Einnig var sjúkraþjálfari  sem aðstoðaði mig og leiðbeindi um hvernig best væri að bera sig að fyrstu dagana og vikurnar.  Ég var á sjúkrahúsinu í 2 ½ sólarhring og áttum við pantað flug heim  á laugardeginum 10. nóvember, því mér var ráðlagt að fara ekki heim fyrr en eftir nokkra daga. Ferðin heim var það erfiðasta við þetta ferli og þar sem ekki er um sjúkraflug að ræða voru sætin á Saga class og því meira rými. Sjúklingurinn þarf að hreyfa sig á ca. 20 mín. fresti vegna hættu á blóðtappa og það var líka erfitt að sitja lengi í sömu stellingunum.  Áhöfn vélarinnar sýndi mikinn skilning, var mjög hjálpsöm og gerði þetta eins þægilegt og hægt var.  Hún pantaði sérútbúinn hjólastól  fyrir mig til þess að koma mér frá borði þegar heim kom því að ég gat ekki farið út hjálparlaust.  Það var líka mjög erfitt að sitja í bílnum á leiðinni heim frá Keflavík.  Fyrstu dagana var ég mjög slöpp og sennilega hafa meðulin eitthvað með það að gera, en með skurðinn gekk allt eins og áætlað var. Fljótlega fór ég að gera æfingar og hreyfa mig eftir fyrirmælum af bæklingum sem sjúkraþjálfarinn á sjúkrahúsinu  hafði gefið mér.  Ég fór svo í byrjun janúar 2019 til Hveragerðis á Heilsustofnun NLFÍ og var þar í 1 mánuð í endurhæfingu.  Í kjölfarið fór ég í sjúkraþjálfun 2 sinnum í viku næstu 5 mánuði.  Mér hefur gengið vel með að ná góðri færni en það þarf bæði tíma, góða þjálfun og hreyfingu til að jafna sig sem fyrst eftir liðskiptaaðgerð á hné.  Þetta var það besta sem ég gerði í stöðunni, að fara til Danmerkur í aðgerðina. Það er örugglega ómetanlegt að hafa ykkur [HEI] til aðstoðar fyrir fólk í sömu stöðu og ég var í.  Vonandi gagnast þetta yfirlit mitt og gangi ykkur sem allra best með fyrirtækið.

Edda Levy

Ragnar Önundarson

Ég fór utan til að fá nýtt hné í september 2019. Vinur minn benti mér á CPH Privathospital sem hann hafði góða reynslu af snemma árs 2018. Reynslan af CPH er frábær, eingöngu topp-fólk í öllum störfum. Reynsluboltinn Jens Nørgård gerði aðgerðina. Hann hefur gert við þúsundir hnjáliða á sínum ferli og hefur séð öll tilvik sem upp koma margoft áður. Ég fékk að vera inni í tvær nætur og var svo tvær nætur á hóteli inni í Köben. Eftir það heimferð með hjólastólaþjónustu, sem gekk óaðfinnanlega. Fyrstu þrjár vikurnar upplifði ég daglegar framfarir. Núna fjórum mánuðum síðar fer ég tvo göngutúra á dag með hundinn, oft 45 mín. í hvort sinn. Meira en mánuður er síðan ég hef þurft að taka verkjalyf. Þeir sem fara utan stytta bæði sínar kvalir og annarra, því þeirra bið hér heima styttist.

Ragnar Önundarson

Manager
Gréta Guðbrandsdóttir

Áður en ég fór til CPH sjúkrahússins í Danmörku var ég mjög verkjuð í hnénu. Ég fór út 9. desember 2019, því að biðtíminn hér heima var mér um megn vegna verkja. Ég var kvíðin að fara út á sjúkrahús í öðru landi og til læknis sem ég þekkti ekki og því var ekkert traust milli okkar sem er „vond tilfinning“. Eftir fyrsta samtalið við lækninn létti mér mikið því að læknirinn var mjög traustvekjandi og hafði mjög róandi áhrif á mig. Heimferðin gekk vel þó ég væri eðlilega nokkuð verkjuð. Ég var mjög vel undirbúin af sjúkrahúsinu fyrir ferðina, fékk góðar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að haga mér í ferðinni, næstu vikur og um verkjalyf, sem hjálpuðu mér. Sjúkrahúsið og starfsfólkið gæti ekki verið betra þó ég hafi ekki upplifað mörg sjúkrahús. Ég upplifði mikla fagmennsku og nærgætni. Starfsfólki var mjög umhugað um mig, vildi allt fyrir mig gera svo að mér liði sem best. Ég fann virkilega fyrir því að starfsfólkið skynjaði að ég var fjarri mínum nánustu í þessum aðstæðum sem ég „valdi“ ekki sjálf að vera í. Það eina sem ég hefði viljað breyta var að vera einni nótt lengur á sjúkrahúsinu, eftir aðgerðina. Fagmennskan var það mikil að til dæmis lagði sjúkraþjálfarinn mikla áherslu á að fylgja mér eftir og hitti mig á netinu gegnum Webcam 10 dögum eftir aðgerð, til að sjá hvernig staðan mín væri. Allt stóðst upp á mínútu, ég gat sýnt honum hreyfigetuna og fékk ráðleggingar. Mér hefur vegnað vel, þarf að gæta þess að fara ekki fram úr mér. Það reyndar gerðist og þá fór að blæða inn á liðinn. Eftir það fór ég eftir öllum ráðum læknanna og sjúkraþjálfarans sem ég er hjá í dag og þess úti. Ég hef fulla trú á að ég eigi eftir að gera allt sem mig langar til í framtíðinni verkjalaust.

Gréta Guðbrandsdóttir

Developer