Ragnar Önundarson

Ég fór utan til að fá nýtt hné í september 2019. Vinur minn benti mér á CPH Privathospital sem hann hafði góða reynslu af snemma árs 2018. Reynslan af CPH er frábær, eingöngu topp-fólk í öllum störfum. Reynsluboltinn Jens Nørgård gerði aðgerðina. Hann hefur gert við þúsundir hnjáliða á sínum ferli og hefur séð öll tilvik sem upp koma margoft áður. Ég fékk að vera inni í tvær nætur og var svo tvær nætur á hóteli inni í Köben. Eftir það heimferð með hjólastólaþjónustu, sem gekk óaðfinnanlega. Fyrstu þrjár vikurnar upplifði ég daglegar framfarir. Núna fjórum mánuðum síðar fer ég tvo göngutúra á dag með hundinn, oft 45 mín. í hvort sinn. Meira en mánuður er síðan ég hef þurft að taka verkjalyf. Þeir sem fara utan stytta bæði sínar kvalir og annarra, því þeirra bið hér heima styttist.

Ragnar Önundarson

F.v. forstjóri

Ég fór í liðskiptaaðgerð á mjöðm hér á Íslandi vor 2017 og gekk sú aðgerð alveg glimrandi. Þá var mér bent á að fylgjast með hinni mjöðminni, því farið væri að sjá á brjóskinu þar. Ég var farinn að finna fyrir verkjum í vinstri mjöðm haustið 2021 - fór í röntgen október 2021. Í viðtali við bæklunarlækni í desember 2021 kom í ljós að nú yrði að taka hina mjöðmina - en að vísu væri u.þ.b. árs biðlisti í slíka aðgerð hérlendis, eitthvað sem mér hugnaðist ekkert sérstaklega enda verkir farnir að aukast frekar hratt. Ég fór í að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni og því miður ekki margt hægt að gera annað en að skoða löndin í kringum okkur. Ég fékk aðstoð læknis við að útbúa umsókn til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og heilsufarsskýrslu (Medical Report (MR)). Umsóknin til SÍ fór inn 7. febrúar og ég varð nokkuð undrandi þegar komið var samþykki 22. febrúar. Ég fór þá strax í að athuga hvar ég kæmist sem fyrst í aðgerð (Ég hafði rekist á auglýsingu frá HEI Medical Travel áður). Ég fékk einnig aðstoð við að athuga m.a. í Svíþjóð og sendi póst á Guðjón hjá HEI. Hann tjáði mér að ég gæti fengið tíma hjá CPH Privathospital þann 28. mars. Ástandið varðandi biðtíma virtist svipað í Svíþjóð og hér á Íslandi, þannig að ég tók þessa dagsetninguna hjá HEI og fór í að koma öllum gögnum til þeirra í gegnum tölvupóst. CPH aðilar voru alveg sáttir við gögnin (MR og röntgen myndir). Ég átti bókað viðtal úti í Danmörku hjá CPH, kl: 12:00 þann 28. mars. Mætti aðeins fyrir þann tíma og var strax tekinn inn í viðtal og skoðun. Ekkert var til fyrirstöðu að fara í aðgerð og var ég kominn inn á skurðstofu fyrir 14:00 og aðgerð lokið 15:15. Allt viðmót starfsmanna hjá CPH er til fyrirmyndar sem og öll umönnun. Ekkert vandamál er að ræða við starfsmenn hvort sem er á ensku, norsku eða sænsku (og að sjálfsögðu dönsku). Fékk leiðbeiningar bæði starfsmanna og sjúkraþjálfara með hreyfingu (sérstaklega hvað ég mátti ekki gera). Ég lá inni í tvær nætur eins og í fyrri aðgerð hérlendis. Útskrift að morgni 30. mars - engin vandamál í gangi. Fór svo með flugi til Íslands þann 1. apríl og fékk hjólastóla aðstoð bæði á Kastrup og í Keflavík og ég mæli hiklaust með að fólk nýti sér þá þjónustu. Núna þegar þetta er skrifað eru liðnar þrjár vikur frá aðgerð. Ég er farinn að ganga úti í styttri gönguferðir með hundana, að vísu með eina hækju til öryggis, eitthvað sem einstaklingsbundið. Sauma / hefti á eftir að fjarlægja, en CPH vill að það sé gert að þrem vikum liðnum og ég á bókaðan tíma í slíkt. "Gömlu" óþverra verkirnir frá mjaðmasliti eru algjörlega horfnir - en finn enn lítilsháttar verki í kringum skurðsvæðið eftir aðgerð, enda ansi stórir vöðvar sem verið er að skera í sundur við svona aðgerð. Guðjóni hjá HEI er frjálst að gefa upp netfang eða símanúmer hjá mér, ef einhver sem er á leið í liðskiptaaðgerð á mjöðm og vill fá frekari upplýsingar. Ég er að eðlisfari frekar activur og þoldi illa þá tilhugsun að getað hvorki stundað útivist (fjallgöngur) né líkamsrækt í langan tíma (a.m.k. eitt ár) sem hefði orðið raunin ef ég hefði beðið eftir að komast í aðgerð hér á landi.

Ævar Ágústsson

Kerfisstjóri